Öndvegissetur og sjávarútvegsnet á Akureyri

Ein mesta uppspretta virðisauka og vaxtar í atvinnulífinu er á Akureyri. Æ fleiri, bæði innan sjávarútvegsins og utan, hafa áttað sig á því að Háskólinn á Akureyri hefur komið á fót fyrsta flokks námi í sjávarútvegsfræðum. Raunvísindadeild skólans hefur útskrifað einstaklinga sem gegna leiðandi störfum í vinnslu og framleiðslu sjávarafurða. Þeir eiga ríkan þátt í þeirri nýsköpun og virðisaukningu sem einkennir nú hinn framsækna geira íslensks sjávarútvegs.

Á þessari klakstöð nýsköpunar og þróunar er vakin sérstök athygli í skýrslu Grænlandsnefndar sem er nýkomin út. Þar heldur Össur Skarphéðinsson, fyrrum iðnaðar- og utanríkisráðherra, á penna og sýnir á sannfærandi hátt fram á gagnkvæma hagsmuni Íslendinga og Grænlendinga af stórauknu samstarfi og samvinnu við nýjar aðstæður á Norðurslóðum. Þar gætu norð-austurhornið, og Akureyri alveg sérstaklega, komið mikið við sögu með því að rækta samskiptin og nýta tækifærin.

HA í fremstu röð á tveimur sviðum

Háskólinn á Akureyri er í fremstu röð á tveimur sviðum, í sjávarútvegs- og auðlindafræðum og í þróun fjarnáms. Norðurslóðaþætti háskólans vex sömuleiðis stöðugt fiskur um hrygg. Íslendingar átta sig ekki alltaf á því hversu framarlega við stöndum í fjarnámi miðað við önnur lönd. Sú staða byggist að verulegu leyti á brautryðjendastarfi Norðlendinga, á Akureyri, Kópaskeri og á Tröllaskaga. Afrakstur rannsókna er einnig fjölþættur, til dæmis má nefna af handahófi nýtingu hliðarafurða sem auka verðmætin úr hverjum fiski og ræktun hvers kyns þörunga sem gefa margvísleg fyrirheit. Þessi verkefni eru til þess fallin að efla samfélagið og skapa störf.

Í Grænlandsskýrslunni er greint frá því að í ráði sé að stofna í haust, í tengslum við Hringborð norðurslóða, sameiginlegan vettvang þjóða og svæða sem hafa leitað eftir auknu samstarfi við Grænland, Ísland og Færeyjar. Þar er meðal annars um að ræða Québec og Nunavut í Kanada, Maine í Bandaríkjunum og Alaska. Skotland og Norður-Noregur eru einnig í sigtinu. Þessi svæði og ríki hafa skilgreint sig sem “gátt” að Norðurslóðum og lykilpunktar innan þess tengjast brátt enn betur með Norðurslóðaneti Eimskipa og Royal Arctic Line í Grænlandi.

Í forystu háskóla sjávarplássa

HA er einn örfárra háskóla í heiminum sem byggir kennslulíkan sitt á fjarnámi. Hann hefur alla burði til þess að taka frumkvæði og vera í forystu fyrir sjávarútvegsneti lítilla en framsækinna alþjóðlegra háskóla sem sameiginlega gætu útskrifað sjávarútvegsfræðinga með úrvalsmenntun þar sem byggt yrði á sérhæfingu hvers skóla. Slíka skóla er að finna á ströndum Norður Ameríku, í Nuuk, og í Evrópu og suma á því svæði sem lýst er að ofan. HA hefur þegar tekið merkilegt frumkvæði um samstarfstengsl við nokkra þeirra. HA með sína kraftmiklu sjávarútvegsdeild og forystu í fjarnámi gæti orðið leiðandi í slíku neti. Slíkt myndi lyfta orðstír skólans, Akureyrar og Íslands um leið og ný alþjóðleg vídd yrði sköpuð um nám í sjávarútvegsræðum í samstarfi alþjóðlegra háskóla. Ávinningur þeirra af þátttöku í slíku alþjóðlegu neti er sérhæfingin sem HA hefur á sviðum fjarmenntunar, sjávarútvegsfræða og Norðurslóða.

Nýlega skrifuðu Bandaríkjamenn upp á samstarfssamning við Grænlendinga um rannsóknir á Norðurslóðum upp á milljónir dollara. Það er til marks um nýja stöðu í okkar heimshluta. Ekki er ólíklegt að áhugi sé á því innan Bandaríkjanna að efla öndvegisssetur í sjávarútvegi á Akureyri.

Í því sambandi þarf að leitast við að efla samstarf á vegum Rannsóknarþings Norðursins.

Suðupottur hugmynda í rannsóknum

Samstarfssamningur milli Háskólans á Akureyri og Háskóla Grænlands í Nuuk, Ilisimatusarfik hefur verið undirritaður. HA gæti aðstoðað við að koma upp sjávarútvegsbraut í Nuuk en um leið lært af Grænlendingum hvernig hægt er að byggja upp öflugt doktorsnám við lítinn háskóla.

Það er nefnilega gagnkvæmur ávinningur af samstarfi sem þessu eins og sýnt er fram á í Grænlandsskýrslunni. Ég komst sjálfur að raun um það í námi mínu við rannsóknarstofnun í erfðafræði við Árósarháskóla að öflugt alþjóðlegt samstarf í rannsóknum getur orðið að ólgandi suðupotti. Tengsl við kollega víðsvegar um heiminn víkka sjóndeildarhringinn og vekja nýjar hugmyndr.

Til framtíðar litið mun öndvegissetur í sjávarútvegi og alþjóðlegt sjávarútvegsnet á Akureyri skapa öflugt teymi nemenda frá sjávarplássum víðsvegar á hinum norðlægu slóðum sem ýmist eru í fjarnámi eða staðnámi. Þau munu skapa tengsl og búa til atvinnutækifæri framtíðarinnar.

Sé það rétt að fyrrum nemendur HA eigi ríkan þátt í þeirri virðisaukningu sem átt hefur sér stað í íslenskum sjávarútvegi, getum við alveg ímyndað okkur hver virðisauki gæti orðið af öndvegissetri í sjávarútvegi á Akureyri sem spannaði Norðurslóðir. Framtíðarhagsmunir okkar Íslendinga eru samtvinnaðir hagsmunum annarra þjóða við Norður- Atlantshaf sem nýta og bera ábyrgð á auðlindum svæðisins.

Höfundur sækist eftir 2. sæti á lista VG í Norðausturkjördæmi

--

Vopnfirðingur og kynbótafræðingur. Skoðanir hér eru mínar eigin.

Love podcasts or audiobooks? Learn on the go with our new app.

Get the Medium app

A button that says 'Download on the App Store', and if clicked it will lead you to the iOS App store
A button that says 'Get it on, Google Play', and if clicked it will lead you to the Google Play store
Kári Gautason

Kári Gautason

Vopnfirðingur og kynbótafræðingur. Skoðanir hér eru mínar eigin.