Friður í þorskastríðunum

Þorskastríð innávið

Síðustu áratugi hefur svo kvótinn hlaðist á færri hendur en áður var. 10 fyrirtæki eiga 50 % af heildarkvóta. Hinsvegar greiða um þúsund aðilar á Íslandi veiðigjöld. Þar er um að ræða úthöld sem eru allt frá því að vera strandveiðibátar upp í útgerðir sem hafa keypt upp sjávarútvegsfyrirtæki í öðrum löndum, sannkallaðir dröttungar. Flóran er því afar fjölbreytt.

Uppboðsleið breytir engu

Sumir stjórnmálaflokkar hafa það markmiði að hafa eins mikið fé út úr fiskveiðiauðlindinni fyrir þjóðarheildina og hægt er, til dæmis með því að bjóða upp aflaheimildirnar. Að mínu viti breytir það ekki grundvallaróréttlætinu. Það verða þá þeir sem fyrir eru á fleti sem bjóða í þessar heimildir, þeir sem eiga skip og svo framvegis. Nýleg dæmi frá Færeyjum sýna að uppboðsleiðir eru fjarri því að vera galdralausn til þess að auka nýliðun. Þeim var raunar hætt vegna þess að þær náðu ekki markmiði sínu. Þetta tel ég að Samfylking og Viðreisn viti vel en telji betra að veifa röngu tré en öngvu.

Brim við hafnargarðinn áVopnafirði

Venslaleið er vænleg

Þá furða margir sig á því að það virðist vera sem að einstaka útgerðir séu komnar yfir 12% þakið sem á að vera á hlutfalli af heildarkvóta. Reglurnar um tengda aðila eru undarlegar svo ekki sé meira sagt og hægt væri að gera þær til muna gegnsærri. Til dæmis með því að sleppa núverandi flækju alfarið og nota aðra aðferð. Það mætti brúka þá leið sem notuð er til þess að reikna út vensl í ættartrjám og kennd er við tölfræðinginn Sewall Wright. Það þýðir að ef að A á 10% aflaheimilda en á 49% hlut í fyrirtæki sem á 6% aflaheimilda telst það sem svo að A eigi 12,94% aflaheimilda. Þessi aðferð myndi ná utan um hverskonar eignarhaldsflækjur svo lengi sem að þær væru gefnar upp. Í okkar tilfelli einfaldar það málið að óheimilt er fyrir erlenda aðila að eiga í íslenskum sjávarútvegi svo það er ekki flókið að rekja eignarhaldsflækjuna og gera upp.

Félagsleg tenging yfir 5%

Tólf prósent af heildarafla er mjög hátt hlutfall af heildarafla og ekki ljóst af hverju “þakið” er sett við það mark. Ég held því fram hvað sem því líður að rétturinn til þessað veiða yfir 5% prósent af öllum fiski á Íslandsmiðum teljist ótvírætt til forréttinda. Um slík réttindi þurfa að gilda aðrar reglur en fyrir trillukarlinn. Gleymum því ekki að það var samvinnuverkefni útgerðarmanna, sjómanna, landverkafólks og samfélagsins að skapa þau skilyrði sem gerðu það að verkum að rekstur sjávarútvegsfyrirtækja hefur gengið vel síðustu áratugi. Fyrirtækin bera í mörgum tilfellum mikla ábyrgð á afkomu heilu sveitarfélaganna. Því fylgir ójafnvægi og setur íbúa þessara samfélaga í flókna stöðu gagnvart þessum sömu fyrirtækjum. Þetta þekkja allir sem eiga rætur í sjávarútvegsplássi.

Varanlegur friður

Einkenni borgarastríða er að þeim lýkur annaðhvort með því að annar aðilinn gjörsigrar hinn, sem er þá troðin undir, eða að samið er um frið á skynsamlegum grunni. Ég tel að með því að leita skynsamlegra lausna megi ná varanlegum innanlandsfriði í “þorskastríðunum”. Þetta er innlegg í þá umræðu.

--

--

Vopnfirðingur og kynbótafræðingur. Skoðanir hér eru mínar eigin.

Love podcasts or audiobooks? Learn on the go with our new app.

Get the Medium app

A button that says 'Download on the App Store', and if clicked it will lead you to the iOS App store
A button that says 'Get it on, Google Play', and if clicked it will lead you to the Google Play store
Kári Gautason

Kári Gautason

Vopnfirðingur og kynbótafræðingur. Skoðanir hér eru mínar eigin.