Friður í þorskastríðunum

Svarta skýrslan um sjávarútveg kom út fyrir rúmum fjörutíu árum. Það var í sama mund og Íslendingar færðu út fiskveiðilögsöguna í 200 mílur góðu heilli. Bretar kölluðu þessa skýrslu áróðursplagg. Auðvitað var boðskapur hennar nýttur í áróðursstríðunum við Breta sem kölluð voru þorskastríð og leiddu til árekstra milli varðskipa og herskipa. Hitt var verra að eftir unninn sigur, þegar engum öðrum var um að kenna á miðunum, fórum við Íslendingar ekki eftir ráðleggingum skýrslunnar. Veiðin jókst þangað til lífríkinu stóð ógn af og kvótakerfinu var komið á.

Þökk sé kvótakerfinu, tækniframförum og aðlögunarhæfni er sjávarútvegurinn í dag, eftir þessi fjörtíu ár af kvóta- og markaðsstýrðum veiðum, orðinn allt annað fyrirbæri en áður var. Fyrir það fyrsta þá er af honum mikill hagnaður. Þó að níu af hverju tíu krónum gjaldeyris, sem þjóðarbúið aflaði, væri vegna sjósóknar fyrir 1980 var sjávarútvegurinn ekki sérlega arðbær. Gengið var fellt reglulega til að rétta hann af og allskyns lánafyrirgreiðslur tíðkuðust. Í dag fást fjórföld verðmæti fyrir hvern þorsk miðað við tímann fyrir kvótasetningu. Þessi aðferðarfræði hefur óneitanlega virkað. Í meginatriðum þá ofnýtum við ekki auðlindir sjávar og í kerfinu er hvati til þess að skapa sífellt meiri verðmæti úr hverjum fiski. Velgengnin hjá atvinnuveginum í heild, sem ber að fagna, hefur á hinn bóginn skapað ójafnvægi sem ekki er hægt að líta framhjá.

Þorskastríð innávið

Síðustu áratugi hefur svo kvótinn hlaðist á færri hendur en áður var. 10 fyrirtæki eiga 50 % af heildarkvóta. Hinsvegar greiða um þúsund aðilar á Íslandi veiðigjöld. Þar er um að ræða úthöld sem eru allt frá því að vera strandveiðibátar upp í útgerðir sem hafa keypt upp sjávarútvegsfyrirtæki í öðrum löndum, sannkallaðir dröttungar. Flóran er því afar fjölbreytt.

Kannski mætti segja að þorskastríðunum hafi aldrei lokið heldur hafi þau snúist innávið. Ef lýsa mætti þorskastríðunum við Breta sem einhverskonar framhaldi af sjálfstæðisbaráttu Íslendinga, þá eru “þorskastríð” dagsins í dag meira í ætt við borgarastríð. Um fátt er jafn mikið ritað og rifist eins og sjávarútveg, hvort hækka eða lækka eigi veiðigjöld, hvort bjóða eigi út aflaheimildir og allt þar í milli.

Erfitt er því að koma með tillögur til sátta á þessu sviði sem ekki hefur verið rifist um áratugum saman. Hér skal þó gerð tilraun. Eitt megnasta óréttlætið sem fylgir núverandi kerfi er það að tiltölulega fámennur hópur á í raun nýtingarréttinn á fiskinum í kringum landið. Hann fer með þann rétt sem varanlega eign sína en greiðir vissulega fyrir það afkomutengt veiðigjald. Gjaldið hækkar þegar vel gengur og lækkar þegar ver árar. Hversu stórt hlutfall af hagnaði þetta gjald á að vera er og verður álitamál.

Uppboðsleið breytir engu

Sumir stjórnmálaflokkar hafa það markmiði að hafa eins mikið fé út úr fiskveiðiauðlindinni fyrir þjóðarheildina og hægt er, til dæmis með því að bjóða upp aflaheimildirnar. Að mínu viti breytir það ekki grundvallaróréttlætinu. Það verða þá þeir sem fyrir eru á fleti sem bjóða í þessar heimildir, þeir sem eiga skip og svo framvegis. Nýleg dæmi frá Færeyjum sýna að uppboðsleiðir eru fjarri því að vera galdralausn til þess að auka nýliðun. Þeim var raunar hætt vegna þess að þær náðu ekki markmiði sínu. Þetta tel ég að Samfylking og Viðreisn viti vel en telji betra að veifa röngu tré en öngvu.

Venslaleið er vænleg

Þá furða margir sig á því að það virðist vera sem að einstaka útgerðir séu komnar yfir 12% þakið sem á að vera á hlutfalli af heildarkvóta. Reglurnar um tengda aðila eru undarlegar svo ekki sé meira sagt og hægt væri að gera þær til muna gegnsærri. Til dæmis með því að sleppa núverandi flækju alfarið og nota aðra aðferð. Það mætti brúka þá leið sem notuð er til þess að reikna út vensl í ættartrjám og kennd er við tölfræðinginn Sewall Wright. Það þýðir að ef að A á 10% aflaheimilda en á 49% hlut í fyrirtæki sem á 6% aflaheimilda telst það sem svo að A eigi 12,94% aflaheimilda. Þessi aðferð myndi ná utan um hverskonar eignarhaldsflækjur svo lengi sem að þær væru gefnar upp. Í okkar tilfelli einfaldar það málið að óheimilt er fyrir erlenda aðila að eiga í íslenskum sjávarútvegi svo það er ekki flókið að rekja eignarhaldsflækjuna og gera upp.

Félagsleg tenging yfir 5%

Tólf prósent af heildarafla er mjög hátt hlutfall af heildarafla og ekki ljóst af hverju “þakið” er sett við það mark. Ég held því fram hvað sem því líður að rétturinn til þessað veiða yfir 5% prósent af öllum fiski á Íslandsmiðum teljist ótvírætt til forréttinda. Um slík réttindi þurfa að gilda aðrar reglur en fyrir trillukarlinn. Gleymum því ekki að það var samvinnuverkefni útgerðarmanna, sjómanna, landverkafólks og samfélagsins að skapa þau skilyrði sem gerðu það að verkum að rekstur sjávarútvegsfyrirtækja hefur gengið vel síðustu áratugi. Fyrirtækin bera í mörgum tilfellum mikla ábyrgð á afkomu heilu sveitarfélaganna. Því fylgir ójafnvægi og setur íbúa þessara samfélaga í flókna stöðu gagnvart þessum sömu fyrirtækjum. Þetta þekkja allir sem eiga rætur í sjávarútvegsplássi.

Eigi sjávarútvegsfyrirtæki að viðhalda rétti sínum til þess að nýta hátt hlutfall af heildaraflaheimildum verða þau að mínum dómi að vera að einhverju marki í eigu heimamanna og starfsfólks. Setja mætti þá reglu að fyrir hvert prósent yfir 5 prósent viðmið þyrfti tiltekinn hluti af félaginu að vera í eigu heimamanna og starfsfólks. Ég gef lítið fyrir kennisetningar um að slíkt gangi ekki þar sem kapítalistar séu best til þess fallnir að hámarka arð af auðlindinni. Nú þegar eru dæmi um útgerðarfélög með félagslegt eignarhald, þar sem arður af rekstri er fjárfestur innan samfélagsins en ekki braskað með hann á fjarlægjum eyjum eða í ótengdum rekstri. Slíkt fyrirkomuleg myndi jafna stöðuna talsvert og auka jafnræði milli íbúa í sjávarplássi eða landshluta og útgerðarfjölskyldu sem stýrir því hvort plássið lifir eða deyr með ákvörðunum sínum um ráðstöfun aflaheimilda. Það má því segja að þetta sé ákveðinn vísir að sjálfstæði sjávarútvegsplássa.

Varanlegur friður

Einkenni borgarastríða er að þeim lýkur annaðhvort með því að annar aðilinn gjörsigrar hinn, sem er þá troðin undir, eða að samið er um frið á skynsamlegum grunni. Ég tel að með því að leita skynsamlegra lausna megi ná varanlegum innanlandsfriði í “þorskastríðunum”. Þetta er innlegg í þá umræðu.

Höfundur er í forvali fyrir Vinstrihreyfinguna grænt framboð í Norðausturkjördæmi

Vopnfirðingur og kynbótafræðingur. Skoðanir hér eru mínar eigin.

Vopnfirðingur og kynbótafræðingur. Skoðanir hér eru mínar eigin.