Stóð svo vel til höggsins

Ég kveikti á kastljósi dana um daginn eftir að ég heyrði að forsætisráðherra þeirra hefði fyrirskipað að öllum minkum í Danmörku skyldi lógað. Það var skrítin tilfinning að sjá þar staddan mann sem ég þekkti, Jens Wistoft, minkabóndi á Fjóni. Honum kynntist ég 2012, þegar ég var í skiptinámi í Árósarháskóla og vann að rannsóknarverkefni í minkarækt.

Jens Wistoft er hér lengst til hægri

Jens var harður á svipinn, hann þurfti greinilega að einbeita sér að því að halda haus. Sár og reiður yfir því að horfa framan í það að þurfa að drepa öll dýrin sín. Hann er hæglætismaður, ræktunarmaður sem rekur fjölskyldubú. Væri hann íslenskur sauðfjárbóndi kynni hann hrútaskrána utanbókar. Blikið í augunum var ekki ósvipað á þeim bændum í Skagafirði sem komið hafa í viðtöl vegna riðunnar þar. Sorg og tregi.

Ég þekki þessa tilfinningu, fyrir þrem árum fór ég með pabba og föðurbróður að drepa okkar minka. Ákvörðunin hafði verið tekin um sumarið, það átti að hætta með mink í Engihlíð. Það var tómlegt um að litast þegar við kláruðum úr húsunum, drungaleg þögn þar sem áður var líf. Það er erfitt að útskýra þessa tilfinningu fyrir þeim sem ekki hafa haldið skepnur. Minkur hafði verið í Engihlíð í rúm þrjátíu ár. Stofninn var orðinn góður, stór og feldurinn þéttur. Það að þurfa að drepa allt ævistarfið er erfitt. Meira að segja þegar tími gefst til þess að ákveða það, ræða og sætta sig við. Enn þegar ákvörðunin er annarra hlýtur það að verra enn erfiðara.

Svo í gær sá ég að þingmaður Samfylkingarinnar, Ágúst Ólafur sagði að það væri réttast að hætta með minkarækt hér líka. Hægt væri að greiða minkabændunum bætur fyrir að þeir hætti, líkt og gert er þegar sauðfjárbændur þurfa að skera niður vegna riðu. Þær bætur miðast við 2–3 ára stopp en ekki ævilangt. Hann telur minkarækt ekki vera í samræmi við sína siðferðisvitund og því þurfi að banna hana.

Það er í fína lagi að hafa mismunandi skoðun á hvort einhver atvinnustarfsemi á rétt á sér eða ekki. Til dæmis er hægt að hafa þá skoðun að vera kolanámumaður sé siðferðilega rangt vegna áhrifa þess á loftslagsröskunina. En það er taktlaust að það hlakki í manni þegar kolanámumaðurinn missir vinnuna og ævistarfið.

Það getur verið að það stafi ógn af kórónasmitinu sem geisað hefur í mink í Danmörku. Sérstaklega hinu svokallaða Cluster-5 afbrigði sem hefur stökkbreytingu í próteininu sem gæti haft þau áhrif að bóluefni virki verr. Hundruð stökkbreytinga hafa orðið til í mönnum á þessu sama próteini víðs vegar um heiminn. Tólf danir hafa greinst með þetta smit, en enginn síðan í September. Svo hugsanlega er þetta afbrigði útdautt nú þegar.

Soumya Swaminathan, aðalvísindamaður WHO tók fram að það væri ekkert sem benti til þess á núverandi tímapunkti að afbrigðið sem talað er um sé ólíkt öðrum afbrigðum hvað bóluefni varðar. Mikilvægt sé að hrapa ekki af ályktunum heldur leyfa vísindunum að vinna vinnuna. Danir ætla að dauðrota bransann til þess að vera öruggir. Það held ég að sé ofsafengið viðbragð sem muni reynast þeim dýrt.

Þorgeir Hávarsson hjó í Fóstbræðasögu niður saklausann mann vegna þess að hann „stóð svo vel til höggsins“. Þetta er álíka hugsanaháttur. Ef að nógu fáir starfa í bransanum sem maður er á móti, þá má svipta þá ævistarfinu. Þingmanninum til upplýsingar starfa líka fáir við skógrækt, svínarækt, kjúklingarækt, fiskimjölsverksmiðjur og netagerð. Það eru allt störf sem með einhverjum hætti tengjast því að nýta lífheiminn og því hugsanlega gegn siðferðisprinsippum einhvers.

Ég tel það í besta falli vafasamt að það sé siðferðilega verjanlegt að ætla að svipta fólk ævistarfinu að óþörfu.

Vopnfirðingur og kynbótafræðingur. Skoðanir hér eru mínar eigin.

Vopnfirðingur og kynbótafræðingur. Skoðanir hér eru mínar eigin.