UPPÖRVUN OG HVATNING Í FORVALI

Undanfarnar vikur hef ég átt ótal samtöl við félaga mína í VG hvaðanæva að úr kjördæminu. Ég hef fengið uppörvun og hvatningu frá skólafélögum á Akureyri, Hvanneyri, frá Vopnfirðingum og fleirum sem ég er ákaflega þakklátur fyrir. Það er greinilega ákall eftir endurnýjun, enda hefur aldrei verið frambjóðandi undir 35 í Norðaustur kjördæmi fyrir VG í öðru hvoru efsta sætinu. Það er kominn tími til að breyta því! Ég gef kost á mér í 2. sæti listans.

40 sec um hvað ég stend fyrir

Full atvinna, fjölbreytt nýsköpun

Forval er góður vettvangur til þess að skerpa sína sýn á málin. Ég hef í bloggi, greinum og samtölum talað um sígild félagsleg gildi. Aukið félagslegt eignarhald í sjávarútvegi — um það að starfsfólk og heimamenn eigi hlutdeild í arðinum sem hún skapar. Ég hef sett fram kröfuna um fulla atvinnu, enda er atvinnuleysi ekki bara áfall fyrir afkomu heimila. Það er spurning um reisn að geta séð fyrir fjölskyldunni með launavinnu. Fulla atvinnu fáum við ekki nema með fjölbreyttri nýsköpun, í gömlum og nýjum greinum. Ég hef rætt tækifærin sem felast í því að efla samstarf um Norðurslóðamál. Sérstaklega fyrir Háskólann á Akureyri, sem ætti að vera öndvegissetur í sjávarútvegi á Norðurslóðum.Þá hef ég fjallað um aðgerðir í loftslagsmálum, sem sem eru til þess fallnar að ná árangri en eru ekki bara skýjaborgir án jarðtengingar. Þessu til viðbótar hef ég skrifað um landbúnað og tækifærin sem eru til staðar.

Djúpar rætur í atvinnulífi og menningu

Ég hef einnig heyrt ákall um það að gæta að tengslunum við verkafólk og bændur. Því er ég sammála, allt of víða hafa vinstriflokkar orðið af rótlausum flokkum í borgum og bæjum. Það þarf að hlúa vel að rótunum í atvinnu- og menningarlífi. Öfgakennd dæmi um rótleysið sjáum við í Bandaríkjunum — bláar eyjur borganna (Demókratar) eru í annars rauðu hafi (Repúblikanar)dreifbýlisins. Það er það sem gerist ef að rót vinstrisins visnar.

VG- vinstri hugsun, grænar lausnir

Verkefni næsta hálfa árs er að afla fylgis fyrir VG svo að hreyfingin verði áfram leiðandi í íslenskum stjórnmálum. Þannig færum við samfélagið í átt að auknum jöfnuði — svo að allir hafi tækifæri óháð bakgrunni. Eins og ein af fyrirmyndum mínum í stjórnmálum orðaði einu sinni svo vel á fundi, “það er ekkert mál að vera bara heima hjá sér, brjálaður með góða stefnu”. Það er heila málið, það sem er snúið er að afla stefnunni fylgis. Til þess þurfum við frambjóðendur sem hafa breiða skírskotun en höfða ekki bara til þröngra hópa.

Ég er tilbúinn til þess að svara þessu kalli.

Vopnfirðingur og kynbótafræðingur. Skoðanir hér eru mínar eigin.

Vopnfirðingur og kynbótafræðingur. Skoðanir hér eru mínar eigin.